Björn Guðmundsson 1928-2007, afi Bjössi :D

Í dag 15. júlí, er ár síðan að afi Bjössi lagðist til hinstu hvílu. Fyrir ári átti ég mjög erfitt með að trúa því. Það eina sem að ég gat hugsað var að afi hafði alltaf verið til, hann gat ekki bara farið. Ég skrifaði enga minningargrein um afa og ég hef ekkert talað um hann opinberlega. Ég er tilbúin í það núna og langar að skrifa smá um hann hér.

Mér fannst mjög erfitt að sætta mig við að afi væri veikur, var eiginlega hálfreið við veikindin hans. Einhvern tíman þegar ég sat hjá honum og við vorum að tala um þetta allt saman sagði ég í reiði minni að þetta væri svo ósanngjarnt. Afi sagði hins vegar hinn rólegasti að hann væri sáttur, hann væri búinn að skila sínu hlutverki og væri stoltur og ánægður með allt það sem hann hafði séð og upplifað.

Því er ekki hægt að neita að afi Bjössi var mjög stoltur og pottþéttur maður. Hann hafði fengið að fylgjast með börnunum sínum og barnabörnunum stækka og fullorðnast. Hann hafði ferðast um allan heim. Hann hafði upplifað gleði og söknuð og hann hafði grátið og hlegið. Afi bar höfuðið alltaf hátt og horfði alltaf framan í heiminn með bros á vör. Afi átti heilan helling af vinum og stóra fjölskyldu sem stóð alltaf við bakið á honum og hann við bak þeirra.

Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um hann afa. Hann var alltaf til staðar þegar þess þurfti. Ég leitaði mikið til afa og hann var ávallt tilbúinn með hjálparhöndina hvort sem það var hjálp sem ég þurfti við hið persónulega líf, skólann, vinnu eða framtíðina, það skipti hann engu máli, hann bara hjálpaði. Núna í vor lenti ég meira að segja í því að hafa tekið upp símann, slegið inn númerið hjá afa Bjössa, og ætlað segja honum að ég hafði loksins ákveðið efni fyrir stúdentsritgerðina mína. Það hinsvegar gekk ekki alveg upp þar sem að ekki er hægt að ná í afa í gegnum síma.

Núna þegar ár er liðið frá því að hann fór þá hef ég mikið verið að hugsa um hann afa Bjössa. Það eru margar minningar sem koma upp í kollinn á mér og margar hverjar mjög skemmtilegar. Mig langar að deila nokkrum af þessum minningum með ykkur og ég veit að frændsystkini mín hafa mörg hver svipaðar sögur að segja!

 

Afi var alltaf mjög fínn. Hann var alltaf í jakkafötum og skyrtu og bar höfuðið ávallt hátt. Hann var alltaf með greiðu í vasanum til að hann gæti greitt hárið aftur ef að það hafði feikst til í vindinum. Það voru alltaf sömu hreyfingarnar með höndina á undan og svo fíngerða greiðan eftirá. Afi minn var töffari!

 

Afi þekkti alla. Hann heilsaði öllum með nafni, sama hvar hann var. Ég hugsaði oft þegar ég var lítil að afi minn væri frægasti maður í heimi. Þegar ég varð eldri áttaði ég mig hins vegar á því að það eina sem að þurfti til var þessi lífsgleði hjá honum afa mínum. Afi var mjög góður maður og mikil félagsvera með mikla persónutöfra og átti því auðvelt með að kynnast fólki. Afi minn var kúl!

 

Afi var alltaf með tyggjó. Hann var alltaf með blátt extra tyggjó og tuggði það vel og lengi. Afi bauð mér alltaf tyggjó, ég sagði alltaf já. Ég sagði honum hins vegar aldrei að mér fannst blátt extra tyggjó í raun alveg hræðilega vont. Ég vildi bara ekki bregðast honum afa mínum. Afi minn var kallaður afi tyggjó!

 

Afi borðaði mikinn mat, það fór nú ekki framhjá neinum held ég. Það sem að afi gerði þó alltaf við matinn var að ofsalta hann. Til dæmis ef að ég gisti hjá afa þá gerði hann alltaf hafragraut. Þann hafragraut kalla ég alltaf saltgrautinn mikla því sá grautur var einn sá saltaðasti sem ég hef borðað. En ekki sagði ég nei og hámaði ég því hann í mig af “bestu” lyst. Síðan drakk afi alltaf nýmjólk. Ég drakk aldrei nýmjólk því mér fannst hún eins og óþeyttur rjómi á bragðið en ég drakk hana alltaf hjá afa því ég vildi ekki segja nei.. Afi minn var bangsi með góða matarlyst!

 

Afi var besti klórari í heimi. Með stóru krumlurnar sínar var ótrúlegt hvað hann klóraði vel. Hann klóraði alltaf á manni bakið og það var æði. Hann hætti því aldrei. Afi minn var ofurklórari!

 

Afi andaði mjög hátt. Hann andaði alltaf með nefinu og það heyrðist oft í honum anda langar leiðir, sérstaklega þegar hann var að borða. Síðan má nú ekki gleyma blessuðu hrotunum hjá honum afa. Þær eru eitthvað sem maður gleymir aldrei, þessar djúpu, drungalegu, ofurháu hrotum.Síðan fékk hann sér þessa risavöxnu súrefnisgrímu til að hroturnar hættu og þvílíka tryllitækið sem það var. Afi minn vildi láta í sér heyra!

 

Alltaf þegar afi kvaddi mann þá kyssti hann “stjörnurnar”manns, augun. Það var enginn venjulegur koss. Þetta var risavaxinn ofurblautur koss beint á augun. Þegar hann var búinn að kyssa “stjörnurnar” og hann snéri sér að næstu manneskju þá nýtti maður oft tækifærið til að þurrka vel blauta augað sitt. Þessu var oft hlegið að. Afi minn vildi bara láta vita af sér!

 

Oftar en ekki eftir stjörnukossinn laumaði hann afi “smá aur” í vasann hjá manni. Þessi “smá aur” eins og hann kallaði það var yfirleitt 1000 kall eða meira. Afi minn átti fjársjóðskistu eins og Lína Langsokkur!

 

Afi eyddi nánast hverjum einustu jólum hjá okkur, á Akureyri, í Skólagerðinu, á Borgarholtsbrautinni og að lokum í Baugakór. Fyrir mér komu jólin þegar afi var mættur. Þess vegna voru síðustu jól mjög átakanleg en líka mjög gleðileg þar sem ég var hjá pabba á jólunum í fyrsta skipti í 6 ár. Afi minn var jólasveinninn minn!

 

Í dag er ég búin að átti mig á því að hann er farinn, hann kemur ekki aftur. Það er hægt að hugga sig við það að afi fór eftir lögmálum náttúrunnar, hann fór fyrstur. Þannig er eðli lífsins. En þó að hann sé farinn verður hann afi Bjössi, fyrir mér, alltaf til. Hann var mjög stór hluti af mínu lífi og margra annara og afi Bjössi mun því alltaf lifa í minningunum!

 

Mér þótti ótrúlega vænt um afa og þykir enn! Afi var mjög heppinn maður og hann elskaði fjölskylduna sína meira en allt. Eins og ég hugsaði einhvern tíman þegar ég var lítil, ég ætla að verða eins og afi þegar ég verð stór. Hann naut lífsins, hann yfirsteig erfiðleika og hélt áfram. Ég ætla að verða eins og afi og standa við það. Ég ætla að skilja eftir mig stór spor en það gerði hann afi Bjössi svo sannarlega!

 

 

Að lokum vil ég óska Katrínu Önnu til hamingju með afmælið í dag :D

 

Kv. Ásta Hulda

 

P.S. Ég og afi eigum samtals 100 ára afmæli í ár :D

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góða minningu, kveðja mamma.

Hulda mamma (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 21:47

2 identicon

afi þinn var greinilega góður maður og ekki dónalegt að feta í hans fótspor sem þú eflaust gerir :)

 annar skemmtu þér vel úti og komdu svo fljótlega heim.... ég er strax byrjuð að sakna þín mega mikið ! ¨
þú ert klárlega límið í þessum vinahóp !!

 kv Sandra

Sandra (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 23:07

3 identicon

Þetta er góð minning um afa hjá þér Ásta mín.  Ég brosti út í annað við mörg atvik sem þú skrifaðir um afa.  Gangi þér allt í haginn elsku frænka.   Kær kveðja Ási frændi

Ásbjörn Björnsson (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásta Hulda Ármann

Höfundur

Ásta Hulda Ármann
Ásta Hulda Ármann
Aðeins 5 sekúndur í hinn stóra heim!

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • SDC14578
  • SDC14540
  • SDC14493
  • SDC14364
  • SDC14462

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband